Vel heppnaður ársfundur FA fór fram 13. nóvember s.l. þar sem rúmlega 240 manns tóku þátt á staðnum og í streymi. Aðal fyrirlesturinn að þessu sinni fjallaði um þá samræmdu aðferðafræði sem beitt er í umönnunargeiranum í Svíþjóð hvað varðar umgjörð tungumálafulltrúa á vinnustað, en FA vinnur að því að byggja upp sambærilega umgjörð hér á landi. Hér er hægt að horfa á upptökur af einstökum liðum fundarins og fundinn í heild sinni:
Opnun – Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra
Í erindi sínu lagði ráðherra áherslu á að öflugt framhaldsfræðslukerfi skipti sköpum fyrir fullorðið fólk og geti opnað því nýjar leiðir til að láta drauma sína rætast. Hann benti á að innflytjendur eru ekki einn hópur og því þurfa að vera formlegar og óformlegar leiðir fyrir íslenskunám, vinna þurfi að því að ná yfirsýn yfir það sem er nú í boði og draga lærdóm af fortíðinni. Horfið á erindi Guðmundar Inga hér fyrir neðan.
Vöxtur innflytjenda í námi, Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA og Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA
Hildur Betty og Maj-Britt sýndu yfirlit yfir aukna þátttöku innflytjenda í framhaldsfræðslunni og hluta fjármagns sem hefur farið í íslenskunám/íslenskukennslu undanfarin ár, frá ríkinu, Fræðslusjóði, Rannís og starfsmenntasjóðum. Þetta eru háar upphæðir en ljóst er að yfirsýn og stefnu skortir og því er verk að vinna við að samhæfa leiðir í málaflokknum. Horfið á erindi Bettyjar og Maj-Britt hér fyrir neðan.
Tungumálafulltrúi á vinnustað (Språkombud), Olga Orrit, sérfræðingur hjá Miðstöð fyrir færniþróun í umönnunargeiranum í Svíþjóð
Olga Orrit sagði frá athyglisverðu verkefni sem hóf göngu sína árið 2009 í Svíþjóð. Það er verkefni sem snýst um tungumálastuðning á vinnustað þar sem fulltrúar fyrirtækja (starfsfólk) eru sérstaklega þjálfaðir í að veita tungumálastuðning og stjórnendur fá leiðbeiningar um hvernig best sé að innleiða hlutverk tungumálafulltrúa í samstarfi allra. Þetta verkefni hefur gefið mjög góða raun og hefur skilað sér í aukinni vellíðan í vinnu, færri veikindadögum og minni starfsmannaveltu. Í dag eru yfir 55.000 tungumálafulltrúar í 153 sveitarfélögum í Svíþjóð og Norðmenn hafa einnig tekið upp þetta kerfi. Horfið á erindi Olgu hér fyrir neðan.
Fyrra pallborð: Stefna, umgjörð og aðgengi að jöfnum tækifærum til íslenskunáms
Í fyrra pallborði fundarins tóku Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA þátt. Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og inngildingar hjá ASÍ stýrði pallborðinu. Í máli þátttakenda kom fram að íslenskan er lykill að þátttöku í samfélaginu og að það sé mikilvægt að allir sem hér búa fái tækifæri til að læra og tjá sig á íslenskri tungu. Einnig var bent á að fjórðungur starfandi á landinu eru innflytjendur og hagkerfið okkar mun ekki vaxa án þeirra. Vegna þessa er íslenskan mikilvægur þáttur í því að allir geti tekið þátt í samfélaginu. Horfið á pallborðið hér fyrir neðan.
Seinna pallborð: Íslenskunám á vinnustað – tækifæri og áskoranir
Í seinna pallborði dagsins, tóku Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á menntadeild Landspítalans, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg, Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Hornsteini og Ólöf Guðmundsdóttir, hótelstjóri Hilton Reykjavik Nordica þátt. Kristjana Arnarsdóttir, sérfræðingur á miðlunarsviði SA stýrði pallborðinu. Í máli þeirra kom fram að á þeirra vinnustöðum er hátt hlutfall innflytjenda og þekking og kunnátta á íslensku er mjög mikilvæg fyrir flest störf. Vegna þess bjóða fyrirtækin upp á ýmsar leiðir til íslenskunáms. Þau lýstu yfir mikilum áhuga á þeirri leið sem Svíar hafa farið, með þróun samræmdrar nálgunar í formi tungumálafulltrúa á vinnustað. Horfið á pallborðið hér fyrir neðan.
Fyrirmyndir í námi fullorðinna
Honeyly Abrequino Limbaga, tilnefnd af Mími -símenntun. Honeyly hefur nýtt sér verkfæri framhaldsfræðslunnar til að efla þekkingu sína og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Hún lauk Fagnámskeiðum 1 og 2 fyrir starfsfólk leikskóla. Þá fór hún í raunfærnimat í leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú og fékk metnar 75 einingar sem styttu nám hennar töluvert og mun hún ljúka því á næsta ári.
Sunna Rae George, tilnefnd af Þekkinganeti Þingeyinga. Sunna hefur nýtt sér verkfæri framhaldsfræðslunnar og hóf skólagöngu að nýju þegar hún fór í raunfærnimat í leikskólaliða- og stuðningsfulltrúa. Í kjölfarið fór hún í brúarnámið sem hún lauk 2021. Eftir barneignir, störf á leikskóla og við umönnun fór hún áfram í háskólanám í kennarafræðum á Akureyri sem hún stundar nú. Horfið á frásagnir þeirra og veitingu viðurkenninga hér fyrir neðan.
