Fyrirmyndir í námi fullorðinna á ársfundi FA 2025

Honeyly Abrequino Limbaga og Sunna Rae George hlutu viðurkenninguna fyrirmyndir í námi fullorðinna á þessu ári. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem fram fór 13. nóvember s.l. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa bætt stöðu sína eftir þátttöku í leiðum framhaldsfræðslunnar og sýnt framúrskarandi árangur. Fyrirmyndirnar fengu veglega gjöf frá Hilton Reykjavík Nordica Hótel.

Honeyly Abrequino Limbaga var tilnefnd af Mími, símenntun. Hún er 52 ára, fædd og uppalin á Filippseyjum en flutti til Íslands árið 1992. Honeyly hefur starfað hjá Reykjavíkurborg í 15 ár, aðallega á leikskólasviði. Á þeim tíma hefur hún markvisst unnið að símenntun og starfsþróun. Hún hóf nám í íslensku árið 2012 og hefur lokið fjölmörgum íslenskunámskeiðum, þar á meðal Íslensku 1–6, auk nokkurra viðbótarnámskeiða í framburði og tali.

Árið 2016 lauk Honeyly Fagnámskeiði 1 fyrir starfsfólk leikskóla og árið 2020 bætti hún við sig Fagnámskeiði 2 fyrir starfsfólk leikskóla. Árið 2025 hóf hún raunfærnimat fyrir leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú hjá Mími og fékk metnar 75 einingar. Í kjölfarið skráði hún sig í nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú haustið 2025 og mun ljúka námi haustið 2026.

Þróun Honeyly í námi hefur verið markverð. Þegar hún hóf raunfærnimat og nám á þessu ári skrifaði hún í færnimöppuna sína: „Hef aldrei unnið með tölvu. En er að læra.“ Með dugnaði, áhuga og metnaði fór hún í gegnum tölvuáfangann með glæsibrag og fékk frábærar einkunnir. Það sýnir vel þann kraft og námsvilja sem hún býr yfir. Hún hefur eflt færni sína til muna, ekki aðeins í starfi heldur einnig í þeim grunnþáttum sem skipta máli fyrir áframhaldandi nám og störf.

Horfið  á frásögn Honeyly hér fyrir neðan

Sunna Rae George er 30 ára móðir og eiginkona, búsett á Húsavík. Hún ólst upp bæði á Íslandi og Nýja-Sjálandi og er tvítyngd. Sunna er fædd á Íslandi en flutti til Nýja-Sjálands nokkra mánaða gömul þar til 8 ára aldurs. Hún bjó á Íslandi þegar hún var 8-13 ára gömul en þá flutti þá aftur til Nýja-Sjálands. Þegar Sunna var 17 ára gömul flutti hún ein til baka til Íslands og fór að vinna á Húsavík.

Þar sem fjölskylda Sunnu fluttist milli Christchurch á Nýja-Sjálandi og Akureyrar þá var námsferill Sunnu ekki föstum skorðum. Þegar Sunna kom 17 ára gömu til Íslands átti hún eftir hálft ár til að ljúka framhaldsskóla í Nýja-Sjálandi. Eftir að hafa unnið í nokkur ár hérlendis leitað Sunna til náms- og starfsráðgjafa Þekkingarnetsins um ráðgjöf varðandi nám og hvernig væri best fyrir hana að snúa sér í því. Í ljós kom að erfitt væri að meta það sem hún lokið í framhaldsskóla úti inn í framhaldsskólakerfið hér þar sem hún lauk ekki náminu í Nýja-Sjálandi.

Sunna hóf því nám og lauk tók nokkrum áföngum í framhaldsskóla hérlendis og þar sem hún hafði reynslu af störfum í leikskóla og aðhlynningu á öldrunarheimilum skráði hún sig í raunfærnimat fyrir leikskólaliða- og stuðningsfulltrúa. Hún stóð sig vel í raunfærnimatinu og fór í nám í kjölfarið. Í janúar 2021 eignaðist hún sitt fyrsta barn. Hún kláraði námið á meðan fæðingarorlofi stóð í lok árs 2021 og útskrifaðist þá sem leikskólaliði og stuðningsfulltrúi.

Eftir að fæðingarorlof lauk fór hún aftur í vinnu á dvalarheimili aldraðra og á leikskóla. Í kjölfar námsins fékk Sunna launahækkun og sjálstraust hennar jókst í starfi. Sunna hóf síðan nám við Háskólann á Akureyri og nemur nú þar kennnarafræði.

Horfið á frásögn Sunnu hér fyrir neðan

Fyrirmyndirnar eru dæmi um einstaklinga sem nýta  sér verkfæri framhaldsfræðslunnar á áhrifaríkan hátt, sýna framfarir og eru dæmi um það hvernig markvisst nám getur styrkt stöðu einstaklings á vinnumarkaði. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins óskar þeim til hamingju með árangurinn.

(á forsíðumynd: Honeyly Aberquino Limbaga ásamt starfsfólki Mímis, símenntunar)

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar