Rúmlega 240 manns tóku þátt í ársfundi FA, sem var haldinn fimmtudaginn 13. nóvember s.l. á Grand hótel og í streymi. Á fundinum var lögð áhersla á hvernig íslenskukunnátta innflytjenda hefur áhrif á aðgengi þeirra að samfélaginu og velt upp áskorunum og tækifærum í tengslum við íslenskunám. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Tengjum saman – fjölbreytileiki, lærdómur, vöxtur en hann er haldinn í samstarfi við NLL, Norrænt samstarf um símenntun.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra opnaði fundinn þar sem hann lagði áherslu á að innflytjendur væru ekki einn hópur og því þurfi að vera til staðar bæði formlegar og óformlegar leiðir til íslenskunáms. Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA og Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA fóru yfir það fjármagn sem fer í þennan málaflokk og kölluðu eftir yfirsýn og stefnu. Olga Orrit, sérfræðingur hjá Miðstöð í færniþróun í Svíþjóð sagði frá farsælu verkefni í Svíþjóð þar sem starfsfólk er þjálfað sem tungumálafulltrúar á vinnustað.
Tvö pallborð voru á fundinum þar, í því fyrra ræddu Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA um stefnu, umgjörð og aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og jöfnum tækifærum til náms.
Í seinna pallborði var rætt um íslenskufærni á vinnustað, tækifæri og áskoranir. Þar fóru Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á menntadeild Landspítalans, Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri starfsþróunar og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg, Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Hornsteini og Ólöf Guðmundsdóttir, hótelstjóri Hilton Reykjavik Nordica yfir stöðuna á sínum vinnustöðum.
Hápunkturinn var þó þegar fyrirmyndir í námi fullorðinna sögðu frá reynslu sinni af verkfærum framhaldsfræðslunnar, en það voru þær Honeyly Abrequino Limbaga frá Mími símenntun og Sunna Rae George frá Þekkingarneti Þingeyinga.
HORFIÐ Á STREYMI FRÁ FUNDINUM:
Myndir frá fundinum:











Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vill þakka öllum sem komu á Grand hótel eða horfðu á streymi frá fundinum.
