Hildur Betty Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) og Sara Dögg Svanhildardóttir sérfræðingur – Atvinnutækifæri fatlaðs fólks hjá Vinnumálastofnun (VMST) kynntu fyrir Guðmundi Inga Kristinssyni mennta- og barnamálaráðherra og hans starfsfólki verkefnið Færni á vinnumarkaði.
Verkefnið Færni á vinnumarkaði er útfærsla á tillögu starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og er hluti af framkvæmda landsáætlunar um réttindi fatlaðs fólks. Verkefnið byggir á samstarfi FA, VMST, Fjölmenntar, Símenntar og atvinnulífsins (fyrirtæki og stofnanir). Í apríl 2024 veitti þáverandi ráðherra félags- og vinnumarkaðs VMST fjármagn í þróunar- og samstarfsverkefnið Færni á vinnumarkaði. Í framhaldi af því gerði VMST samning við FA sem sá um þróun og utanumhald með verkefninu. Verkefnið var margþætt og voru ákveðnir hlutar þess á vegum FA þar sem í upphafi voru gerðar hæfnigreiningar á átta störfum, skrifuð námskrá og námslýsingar og handbækur fyrir framkvæmdaraðila.
Í september árið 2024 fór námið Færni á vinnumarkaði af stað hjá 11 símenntunarmiðstöðvum víðsvegar um landið og árið 2025 hjá 6 símenntunarmiðstöðvum. Námið Færni á vinnumarkaði gefur fötluðu fólki um allt land tækifæri til þess að efla færni sína til atvinnuþátttöku og er um leið valdeflandi.
Síðan námið fór af stað hafa rúmlega 40 þátttakendur fengið fastráðningu. Verkefnið og niðurstöður þess sýna augljóslega mikinn sveigjanleika framhaldsfræðslunnar eins og sjá má í skýrslu um verkefnið hér.