Um Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf (FA)

 
 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Árið 2010 var starfsemi FA víkkuð út með samþykkt aðildar BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytis.

Hlutverk  FA er að vera samstarfsvettvangur ASÍ, SA, BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytis um fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtakanna.

Markmiðið er að veita starfsmönnum, sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Starfsemin byggir á samþykktum félagsins og þjónustusamningi sem gerður hefur verið við menntamálaráðuneytið.

Starfsemin beinist að þeim sem ekki hafa lokið námi úr framhaldsskóla. Sá markhópur er um 25,2% fólks á vinnumarkaði (árið 2015 miðað við aldursbilið 25-64 ára skv. frétt Hagstofunnar). Hlutfallið er breytilegt milli ára og landssvæða.

 

________________________________________________________________________________

Verkefni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eru að:

 
 • Efla framboð á námstilboðum fyrir fólk á vinnumarkaði með litla formlega grunnmenntun.
  • Greina námsþarfir hjá fyrirtækjum, starfsstéttum og einstaklingum í markhópnum.
  • Lýsa námstilboðum í námskrám.
  • Vera í samstarfi við fræðsluaðila svo sem símenntunarmiðstöðvar um framkvæmd námstilboða.
 • Fá námstilboðin metin svo og raunfærni starfsfólks á vinnumarkaði.
  • Fá viðurkenningu á færni og þekkingu sem aflað er á námskeiðum.
  • Fá viðurkenningu á færni, sem aflað er með starfsreynslu, sjálfsnámi o. fl.
  • Stytta námstímann fyrir þá sem vilja fara í nám.
 • Auka gæði náms í fullorðinsfræðslu og starfsfræðslu á vinnumarkaði.
  • Byggja upp miðstöð kennslufræðilegrar þekkingar í fullorðinsfræðslu.
  • Þjálfa kennara hjá fullorðinsfræðsluaðilum.
 • Hvetja til náms.
  • Byggja upp náms- og starfsráðgjöf á vinnumarkaði.
  • Byggja upp námsferilsskrár.
  • Miðla upplýsingum um mat á námi og færni.
  • Safna og miðla upplýsingum um námstilboð fyrir markhópinn.