Raunfærnimat

Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Nám fer ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við ýmsar aðstæður.  Allt nám er verðmætt og því er mikilvægt að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað.

Með raunfærnimati geta einstaklingar fengið mat  á hæfni/færni óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Þeir geta síðan nýtt sér niðurstöðurnar til að halda áfram námi. Þegar raunfærnimat fer fram á móti námsskrá eru gerðar sömu kröfur um þekkingu og í skólakerfinu. Raunfærnimat er ekki afsláttur á kröfum um þekkingu eða hæfni

Á undanförnum árum hefur hugtakið raunfærnimat fengið aukna athygli í evrópsku samhengi. Ástæður þess eru m.a. samfélagslegar, s.s. mikilvægi mannauðsins í samfélaginu, möguleiki á auknum hagvexti með hækkun þekkingarstigsins, aukið jafnrétti og jafnari staða til þátttöku í þekkingarsamfélaginu.

Mat á raunfærni hefur reynst  hvati fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði til að ljúka formlegu námi. Þar með styrkist staða þess, fagstéttanna, fyrirtækjanna og þjóðarinnar almennt hvað varðar þekkingarstig og framþróun.

Sjá bækling FA um raunfærnimat 

Sjá bækling FA um raunfærnimat á ensku