Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) býður upp á EQM/EQM+ gæðavottun fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu og fræðsludeildir fyrirtækja og stofnana.

Gæðavottunin felur í sér viðurkennd gæðaviðmið fyrir fræðslu, ráðgjöf um nám og störf og raunfærnimat:

EQM vottun: Fræðslustarf
EQM+ vottun: Fræðslustarf, raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf

Ávinningur af EQM/EQM+ vottun

Ávinningur gæðavottunar er aukin gæðavitund sem eflir fræðslustarfsemina. Því er öllum fræðsluaðilum heimilt að nýta EQM/EQM+ verkfærin til mats og eflingar gæða.

Vottunin gagnast öllum þeim sem skipuleggja, bjóða upp á, meta og nota símenntun og fullorðinsfræðslu. Þar á meðal atvinnurekendum, fræðslusjóðum stéttarfélaga, fræðsluaðilum og síðast en ekki síst námsmönnunum sjálfum sem sækjast eftir því að þjónustan uppfylli þeirra eigin kröfur og væntingar um gæði.

EQM/EQM+ er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi, gegnsæi í framkvæmd og skjölun og sameiginleg gæðaviðmið fyrir aðila utan hins formlega skólakerfis. EQM/EQM+ tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem veitt er
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.

EQM/EQM+ byggist á mati fræðsluaðila sem er yfirfarið af matsaðila sem kemur einnig með ábendingar um gæðamál og umbætur á meðan úttektarferlinu stendur.

Innifalið í gæðavottun er:

  • Aðgangur að og notkun rafrænna gagna EQM/EQM+
  • Ein úttekt vegna EQM vottunar, þ.e. heimsókn matsaðila, ferðakostnaður vegna heimsóknar og ritunar úttektarskýrslu
  • Vottunarskírteini
  • EQM merki á rafrænu formi til notkunar á kynningarefni

Fyrir fræðsluaðila á vettvangi framhaldsfræðslunnar á Íslandi getur EQM/EQM+ vottun verið liður í því að fá viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem viðurkenndur fræðsluaðili sbr. lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og reglugerð um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011.

Fræðsluaðili sem hlotið hefur vottun fær leyfi til að nota EQM/EQM+ gæðamerkið í efni sem dreift er til að vekja athygli á þeirri starfsemi sem lýst er á vottunarskírteini.


Nánari upplýsingar má nálgast hjá frae@frae.is

Ef vitnað er í prentað efni eða efni af heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar ber að geta heimilda

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar