Gæðaúttektir í fullorðinsfræðslu

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) óskar eftir matsaðila til að meta gæði hjá fræðsluaðilum sem sinna framhaldsfræðslu. Matsaðilar geta verið einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki sem sinna mati á gæðum. Meginhlutverk matsaðila er að tryggja gildi lýsingar fræðsluaðila á gæðaferlinu sem notað er og meta hlutlægt hvort upplýsingar uppfylli skilyrði. Verkefnið spannar þrjú ár, frá 2017-2019 og er gert ráð fyrir að úttektirnar geti orðið allt að 16 sem dreifast á þessi þrjú ár eða um það bil fimm á ári. Fleiri úttektir geta komið til greina og verður greitt fyrir þær með viðmið á sambærilegum úttektum m.t.t. ferðakostnaðar og umfangs.

Núna nota 16 aðilar um land allt gæðakerfi European Quality Mark (EQM) og er gert ráð fyrir að matsaðili geri úttekt hjá þeim öllum á næstu þremur árum. Nánari lýsingu á gæðaferli EQM og starfi matsaðila eru á heimasíðunni www.europeanqualitymark.org (m.a. á íslensku).

Óskað er eftir verðtilboði í eftirfarandi verkþætti (verð fyrir hverja úttekt og heildarverð, sbr. töflu hér):

a. Úttektir hjá fræðsluaðilum eftir gæðaviðmiðum EQM og EQM+.

1. EQM úttektir (fræðsla). Hver úttekt tekur ½ - 1 vinnudag (auk skýrslugerðar og eftirfylgni), og þarf matsaðili að gera ráð fyrir öllum kostnaði við úttektir svo sem undirbúningi, heimsókn, umsjón með gerð umbótaáætlana og eftirfylgni með þeim ásamt skýrslugerð. Þá þarf að gera ráð fyrir ferðakostnaði og uppihaldi. Óskað er eftir tilboðum í 3 úttektir á höfuðborgarsvæðinu, verð fyrir hverja úttekt verði tilgreint í töflu. Fleiri úttektir geta komið til greina og verður greitt fyrir þær með viðmiði í sambærilegar úttektir með tilliti til ferðakostnaðar og umfangs.

2. EQM+ úttektir (fræðsla, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf). Hver úttekt tekur 1 vinnudag (auk skýrslugerðar og eftirfylgni), og þarf matsaðili að gera ráð fyrir öllum kostnaði við úttektir svo sem undirbúningi, heimsókn, umsjón með gerð umbótaáætlana og eftirfylgni með þeim ásamt skýrslugerð. Þá þarf að gera ráð fyrir ferðakostnaði og uppihaldi. Óskað er eftir tilboðum í 4 úttektir á höfuðborgarsvæðinu og 9 á landsbyggðinni (eins og fram kemur í töflu). Fleiri úttektir geta komið til greina og verður greitt fyrir þær með viðmiði í sambærilegar úttektir með tilliti til ferðakostnaðar og umfangs.

b. Samstarf við FA vegna gæðastjórnunar.

Matsaðili starfar í nánu samstarfi við FA sem er umsjónaraðili gæðakerfisins, vegna sjálfsmatsskýrslna og umbótaáætlana frá fræðsluaðilum og tekur þátt í þróun og umbótum á gæðakerfinu. Gera má ráð fyrir 3-5 klukkustundum í samstarfi fyrir hverja úttekt og 1-2 samráðsfundum árlega vegna þróunar á gæðakerfinu.

Hæfnikröfur matsaðila

* Reynsla af gæðastarfi.

* Víðtæk þekking á námi í íslensku skólakerfi og á faglegum málum sem snúa að námi fullorðinna.

* Þekking á lögum og reglugerðum um framhaldsfræðslu og innsýn í þróun á hæfni í atvinnulífinu.

* Reynsla úr starfi sem kennari eða stjórnandi og skilningur á skipulagi náms til þess að mæta þörfum námsmanna.

* Umtalsverð reynsla af sjálfsmati, námsmati og/eða gæðaúttektum.

Að auki eru eftirfarandi kröfur:

Matsaðilar mega ekki vera starfandi í framhaldsfræðslu á meðan á mati stendur, eða undangengið ár.

Matsaðilar mega ekki hafa nein hagsmunatengsl við þann fræðsluaðila sem meta á

Matsaðilar þurfa að hafa hreint sakavottorð.

Áhugasamir skili verðtilboðum ásamt upplýsingum um hæfni til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Skipholti 50 b., 105 Reykjavík eða með tölvupósti á netfangið frae@frae.is fyrir 1. mars 2017. Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Bergþóra Arnórsdóttir (bergthora@frae.is) eða í síma 599 1400 og 842 2838.

 Gaedi 002