Fyrirmyndir í námi fullorðinna 2016

Lærum í skýinu var yfirskrift ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem haldin var á Grand hótel 30. nóvember s.l. Af því tilefni voru veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna, en sú viðurkenning hefur verið veitt árlega frá 2007. Í ár var tveimur einstaklingum veitt viðurkenningin. Hafa þeir notið náms- og starfsráðgjafar, farið í gegnum raunfærnimat og/eða í gegnum eina eða fleiri námsleiðir eftir námskrám FA.
Þeir sem fengu viðurkenningar í ár voru þeir Souleymane Sonde og Vésteinn Aðalgeirsson og voru þeim afhentar spjaldtölvur og blómvendir í viðurkenningaskyni.
Myndband af verðlaunaafhendingunni má finna hér.
Souleymane Sonde hefur sigrað hverja þrautina af annarri, bæði í námi og starfi, með einstakan metnað og áhuga að leiðarljósi. Hann hefur stundað íslenskunám hjá Mími, auk þess að hafa lokið tveimur námsleiðum framhaldsfræðslunnar hjá Mími. Hefur Souleymane sýnt miklar framfarir, hlotið framgang í starfi í kjölfar námsgöngu sinnar og stundar nú nám í Tækni- og verkfræði við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík.
Vésteinn Aðalgeirsson er sjómaður með 25 ára starfsreynslu. Þegar hann hóf vegferð sína hjá SÍMEY var langt um liðið síðan hann var síðast í námi. En þegar hann tók upp þráðinn þá fór hann í gegnum Sjósóknarverkefnið og þar í gegnum bæði raunfærnimat í fiskveiðum og fiskvinnslu. Vésteinn tók síðan ensku í Menntastoðum fyrir sjómenn og fór þar á eftir í nám samhliða starfi sínu og klárar væntanlega Mareltækninn fyrir jól. Vésteinn hefur augljóslega styrkt stöðu sína á vinnumarkaði og opnað á ný tækifæri.

Fyrirmyndir í námi fullorðinna 2016

Á mynd frá vinstri; Halldór Grönvold stjórnarformaður FA, Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY, Vésteinn Aðalgeirsson, Souleymane Sonde, Sólveig H. Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Mími símenntun, Guðný Ásta Snorradóttir Mími símenntun, Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri FA.