Sveinn Aðalsteinsson nýr framkvæmdastjóri FA

Sveinn Aðalsteinsson tók við starfi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins 1. júní sl. Hann tekur við af Ingibjörgu E. Guðmundsdóttur sem gegnt hefur því frá stofnun Fræðslumiðstöðvarinnar en lét af störfum sakir aldurs. Sveinn er með mastersgráðu (MS) í viðskiptafræði frá HÍ 2008 með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Hann er einnig með Ph.D. gráðu í líffræði frá Háskólanum í Lundi.

Sveinn hefur verið framkvæmdastjóri fyrir fræðslusjóðinn Starfsafl, starfsmenntar Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins, frá árinu 2006. Þar hefur hann m.a. unnið að uppbyggingu og framkvæmd verkefnisins "Fræðslustjóri að láni" og og jafnframt verið verkefnisstjóri sameiginlegrar vefgáttar fræðslusjóða, Áttin.is

Sveinn hefur margháttaða reynslu af stjórnun og rannsóknum, var skólameistari Garðyrkjuskólans á Reykjum (síðar Landbúnaðarháskóla Íslands) frá 1999 til 2005. Hann vann jafnframt að uppbyggingu Háskólafélags Suðurlands - Þekkingarnets á Suðurlandi frá stofnun árið 2007, var stjórnarmaður síðan 2007 og síðustu árin formaður stjórnar.

Stjórn og starfsmenn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins bjóða Svein velkomin til starfa og þakka Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur, fráfarandi framkvæmdastjóra, frábært brautryðjendastarf á vettvangi Fræðslumiðstöðvarinnar og fullorðinsfræðslu.