Fyrsta námsskráin vottuð

Menntamálastofnun hefur vottað námsskránna Nám fyrir verslunarfulltrúa sem unnin var af FA í samstarfi við aðila í atvinnulífinu.

Námsskráin er fyrsta námsskrá Fræðslumiðstöðvarinnar sem er unnin samkvæmt nýju fræðsluhönnunarferli en þar er gert ráð fyrir að námsskrá byggi á hæfnigreiningu starfs með virkri þátttöku aðila úr atvinnulífinu.

Námsskráin lýsir námi á 2. þrep og er námið ætlað þeim sem sinna eða hafa hug á að sinna starfi verslunarfulltrúa eða samsvarandi starfi. Markmið námsins er að tryggja að verslunarfulltrúi hafi þá hæfni sem þarf til að sinna skilgreindum verkefnum samkvæmt hæfnigreiningu starfsins.

Námsskránni fylgir námslýsing sem unnin var af Fræðslumiðstöðinni og Mími-símenntun með styrk frá Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks (SVS).

Vottunin byggir á 6. gr. laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og 8.-10. gr. reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep.

Frá því í júlí 2012 hefur ekki verið gert ráð fyrir aðkomu sérstakrar matsnefndar við vottun námsskráa eins og áður tíðkaðist heldur tók ráðuneytið við námsskrám og staðfesti einingarmat samkvæmt eldra kerfi og veitti leyfi til tilraunakennslu til eins árs í senn. Nám fyrir verslunarfulltrúa er því fyrsta námsskráin sem fær vottun samkvæmt því kerfi sem nú gildir og er lýst í lögum um framhaldsfræðslu. Námsskráin er þar með fyrsta námsskráin í framhaldsfræðslunni þar sem tenging við hæfniþrep hefur verið vottuð.

Námsskránna má finna hér.