Raunfærnimati í Almennri starfshæfni lokið innan IPA verkefnis FA

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) hefur nú lokið framkvæmd raunfærnimats í Almennri starfshæfni í samstarfi við Vinnumálastofnun á Akureyri. Verkefnið fellur undir IPA verkefni FA "Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun". FA vann að undirbúningi raunfærnimatsins (þróun viðmiða og verkfæra) í samráði við hagsmunaaðila tengdum atvinnulífinu. Alls tóku 15 atvinnuleitendur þátt í matinu, sem fólst m.a. í færnimöppugerð (draga fram eigin færni) og vinnu við að tengja eigin færni við hæfniviðmið sem taka mið af íslenska hæfnirammanum. Horft var sérstaklega til hæfniþrepa 1.a, 1.b, 2. og 3 í matinu. Þátttakendurnir voru allir yfir 25 ára aldri og höfðu að lágmarki 5 ára starfsreynslu. Niðurstöður matsins dreifðust að mestu leyti á 2. og 3. hæfniþrep. Náms- og starfsráðgjafar og matsaðilar fylgdu þátttakendunum í gegnum ferlið og leiðbeindu þeim í kjölfarið um næstu skref. Að ferlinu loknu voru 6 einstaklingar komnir með vinnu, 6 hófu nám hjá SÍMEY og Verkmenntaskólanum á Akureyri og 2 stefna á nám í haust. Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að raunfærnimat í Almennri starfshæfni geti haft jákvæð áhrif á líf einstaklings m.t.t. sjálfstrausts og atvinnutækifæra.

Esb