Fleiri ljúka námi eftir grunnskóla

Samkvæmt nýjum tölum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands hefur hlutfall Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun lækkað umtalsvert.  Frá árinu sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tók til starfa, 2003, til ársins 2013 hefur hlutfallið lækkað úr 34,4% í 27,8%.  Líkt og áður hefur yngra fólk frekar lokið meiri menntun en þeir sem eldri eru og fólk á höfuðborgarsvæðinu er einnig líklegra til að hafa lengri skólagöngu að baki heldur en íbúar landsbyggðarinnar.

Frétt Hagstofunnar má sjá HÉR.

Grunnmenntun Hlutfall

Á þessu tímabili batnar menntunarstaða kvenna meira en karla.  Árið 2003 höfðu 28,5% karla og 40,4% kvenna  einungis lokið grunnmenntun en árið 2013 hafði dregist mjög saman með kynjunum. Það ár höfðu 26% karla einungis lokið grunnmenntun en hlutfall kvenna var komið niður í 29,6%. Munur milli kynjanna á þessu tímabili fór því úr tæpum 12 prósentustigum niður í 3,6 prósentustig. Á sama tímabili má sjá að ásókn kvenna í vottaðar námsleiðir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er töluvert meiri en karla.

Kynjahlutfall Namsleidir