IÐAN fræðslusetur hlýtur EQM gæðavottun

Nú á dögum hlaut IÐAN fræðslusetur gæðavottun sem kallast European Quality Mark (EQM) en með þeirri vottun er m.a. staðfest að fræðsluframboð IÐUNNAR stenst evrópskar kröfur um gæði fræðslustarfsemi. Þegar lög um framhaldsfræðslu voru sett 2010 var ákveðið á vettvangi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) að leita leiða til að virkja EQM gæðamerkið. Leitað var að fagstofu til að gera úttektir og varð BSI á Íslandi (British standards institution) fyrir valinu að undangenginni könnun á möguleikum. Samningur um vottun var gerður í ársbyrjun og er IÐAN fræðslusetur nú fyrsti fræðsluaðilinn til að hljóta viðurkenningu, en rétt að geta þess að flestir samstarfsaðilar FA og Fræðslusjóðs hafa óskað eftir vottun. Á þessari stundu eru tveir fræðsluaðilar í samstarfsneti FA komnir í gegnum vottunina; IÐAN fræðslusetur og Þekkingarnet Þingeyinga.

EQM er gegnsætt matsferli þar sem fræðsluaðilar fá tækifæri til að meta eigin starfshætti út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum. Með því að meta starfsemi IÐUNNAR hefur því verið staðfest að IÐAN notar skilvirkar aðferðir til að tryggja gæði þjónustunnar, styður við fræðslu og nám með markvissum hætti og beitir góðum stjórnunarháttum við þróun og úrbætur. EQM er því verkfæri til að innleiða gæðastjórnun í starfseminni með þátttöku allra hagsmunaðila.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur unnið að því frá upphafi að bæta gæði fræðslustarfs fyrir fullorðna. Í því skyni voru snemma eða í ársbyrjun árið 2006 sett fram gæðaviðmið og þau afhent fræðsluaðilum til prófunar. Við hönnun viðmiðanna var byggt á samstarfi við Mennt, samstarf atvinnulífs og skóla, en Mennt vann að evrópsku tilraunaverkefni undir heitinu ALL um sama efni. Mennt hélt síðan áfram með nýtt verkefni RECALL (evrópskt yfirfærsluverkefni), en það var fært yfir til FA þegar Mennt hætti starfsemi. Afurðir þessara verkefna allra er EQM gæðamerkið.

Idan EQM
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri FA veitir Hildi Elínu Vigni
framkvæmdastjóra IÐUNNAR fræðsluseturs EQM gæðavottun.